Grjótaþorpsbæir


Teikning Aage Olsen Aanum af Kvosinni og syðri hluta Grjótaþorpsins byggð á kortum frá 1801 og öðrum samtímaheimildum. Svæðið er kennt við bæinn Grjóta, eina af hjáleigum Víkur (Reykjavík). Bæirnir í kringum Grjóta voru nefndir Grjótabæir, þótt þeir hafi allir haft eigin nöfn, reyndar stundum fleiri en eitt, enda oft kenndir við þann sem þar bjó. Bæirnir eru:
    33: Richdalsbær
    35: Gröndalsbær
    44: Hóll
    45: Grjóti
    46: Óvíst (gæti verið skemma)
    47: Helgabær
    48: Ásmundarbær
    49: Vaktarabær
    50: Hákonarbær
    51: Brekkubær
Númer 59 má sjá torfbæinn Götuhús sem líka var ein af hjáleigum Víkur. Stígurinn hjá bænum liggur að Landakoti og þaðan út á Seltjarnarnes að Nesstofu þar sem landlæknir bjó og apótekið var til húsa.


Grjótaþorpsbæirnar afmarkast af götunum Aðalstræti, Vesturgötu, Garðastræti og Túngötu eins og þær liggja í dag. Á þessu svæði bjó mikið af fátæku tómthúsfólki sem langflest bjó í torfbæjum langt fram eftir nítjándu öld. Yfirlitsmyndin er hluti af korti sem V. Lottin útbjó árið 1836.
Hægra megin skáhallt á myndinni er Aðalstræti og neðst sést stígur sem lá upp að Landakoti og seinna varð Túngata.
Grjóti og svonefndir Grjótabæir eru innan hringsins. Auk Grjóta eru það: Helgabær, Richdalsbær, Finnbogabær, Hóll, Birgittubær, Sandholtsbær og Vaktarabær.
Aðrir torfbæir í Grjótaþorpinu á þessum tíma voru Gröndalsbær, Hákonarbær og Brekkubær. Norðar í Grjótaþorpinu stóðu torfbæirnir Arabær, Hákot, Borgarabær, Þorfinnsbær (Höltersbær), Vigfúsarkot, Hóll (Hólkot) og Sjóbúð.
Árið 1802 var búið í 19 húsum í Grjótaþorpi og íbúarnir voru 141. Um 20 torfbæir voru í Grjótaþorpi árið 1836 en eftir það fór þeim fækkandi. Um aldamótin 1900 var búið að rífa alla torfbæi í Grjótaþorpi og byggja timburhús í staðinn.
Réttilega má kalla Grjótaþorp fyrsta úthverfi Reykjavíkur.


Kort Sveins Sveinssonar af Grjótaþorpi og næsta umhverfi frá 1876. Sjá má helstu götur eða götuslóða, sem enn í dag hafa að mestu sömu heiti og liggja eins. Búið er að merkja með bókstöfum torfbæi í suðurhluta Grjótaþorps sem eru Grjótabæirnir og bæir sem stóðu þar sem nú er Mjóstræti, en taldist þá hluti af Brekkustíg. Bæirnir eru:
    a: Grjóti
    b: Vaktarabær
    c: Helgabær eða Ásmundarbær
    d: Richdalsbær
    e: Hóll
    f: Hákonarbær
    g: Brekkubær
    h: Arabær
    i: Hákot
Norðar á myndinni má sjá nokkra torfbæi til viðbótar (ljósmerktir). Vigfúsarkot og í framhaldi Hóll (Hólkot) við Hlíðarhúsastíg (Vesturgötu). Norðan við Hlíðarhúsastíg gengt Hól er Helluland, sem þótti eitt alaumasta kotið í Reykjavík. Vestan megin við Hól eru bæirnir Gróubær og Dúkskot þar sem í dag er Garðastræti.

Kort Lottin frá 1836 lagt yfir núverandi götukort. Torfbæirnir í Grjótaþorpi eru merktir grænir og gefur myndin því býsna góða mynd af staðsetningu torfbæjanna. Myndin sýnir byggingarár þeirra húsa sem nú tilheyra Grjótaþorpi.


Teikning sem sýnir Reykjavík séð frá Hólavallatúni (milli Garðastrætis og Hávallagötu). Myndin sýnir Reykjavík nálægt árinu 1840. Örin hægra megin bendir á Grjótabæina, en örin vinstra megin á bæi sem stóðu norðar í Grjótaþorpi nær Vesturgötu. Lengst til vinstri má sjá Hlíðarhús með þremur burstum. Esjan sést í bakgrunni, talsvert ólík raunveruleikanum.

Vaktarabærinn (innan bláa kassans) var trúlega fyrsta timburhúsið sem byggt var í Grjótaþorpi og það eina sem enn stendur af upphaflegu Grjótabæjunum. Vaktarabærinn var kallaður svo eftir Guðmundi Gissurarsyni vaktara sem byggði húsið 1848 eða skömmu áður. Guðmundur var vaktari bæjarins frá 1830 til 1865 og tók við starfinu af föður sínum. Embætti vaktara hafði verið í Reykjavík með hléum frá 1780. Húsið var hluti bæjarhúsanna í Grjóta. Gerð var lýsing á öllum timburhúsum í Reykjavík árið 1844 en bæjarhúsanna í Grjóta er þá ekki getið, þar sem hann var torfbær og öll bæjarhúsin þá úr torfi og grjóti. Nokkrum árum seinna, 1848, er gerð önnur lýsing á öllum húsum í bænum þar sem þess er getið að Guðmundur Gissurarson vaktari hafi byggt pakkhús, 6 x 5,5 álnir (3,8 x 3,5 m) að stærð. Árið 1856 er Guðmundi leyft að lengja pakkhúsið og í lýsingu húsa í bænum 1860 hefur pakkhúsið þá verið lengt um 4 álnir og er þá orðið 10 x 5,5 álnir (6,3 x 3,5 m). Þetta er í grunninn það hús sem enn stendur á lóðinni sem nú er númer 23 við Garðastræti.
Torfbærinn Hákonarbær stóð þar sem í dag er Mjóstræti 10. Hákon Oddsson frá Vatnsleysu, oft nefndur Hákon ríki þótt bláfátækur væri, reisti bæinn árið 1799. Jón Jóhannesson fóstursonur Geirs Vídalín biskups keypti Hákonarbæ árið 1817. Barnabarn Jóns, Jón Torfason, reif bæinn árið 1898 og byggði timburhús (sérpantað norskt cataloga-hús) á sama stað sem stendur enn og ber sama nafn. Torfi Jónsson byggði sér síðar hús við hliðin á Hákonarbæ árið 1883 í Mjóstræti 8. Ekki er vitað um ljósmyndir af torfbænum en teikningin er tilgátumynd um hvernig bærinn leit út á fyrri hluta 19. aldar. Ljósmynd sem sýnir húsin við Mjóstræti 8 og 10. Hákonarbær, eða Mjóstræti 10, er rauðbrúna húsið byggt árið 1898 á sama stað og torfbær með sama nafni stóð áður. Græna húsið, Mjóstræti 8, var byggt árið 1852 sem smiðja. Það er næst elsta húsið í Grjótaþorpi, aðeins Vaktarabærinn er eldri, byggður 4 árum fyrr. Húsið að Mjóstræti 10 var selt árið 1976, en þá hafði sama ættin búið í Hákonarbæ í 160 ár frá árinu 1817, alls sjö ættliðir.
Líkan af suðurhluta Grjótaþorps eins og talið er að það hafi litið út árið 1886. Stóra rauða timburhúsið er Vinaminni við Mjóstræti (áður Brekkustígur). Nokkrir torfbæir sjást á myndinni. Neðst hægra megin er Hákot, þar næst Arabær við Mjóstræti. Ofar á myndinni er Hákonarbær og þar fyrir ofan Grjóti, Vaktarabær og Helgabær. Ljósmynd af Mjóstræti 2 þar sem áður stóð torfbærinn Arabær, en núverandi hús ber sama nafn. Bærinn var reistur um eða fyrir aldamótin 1800 og kenndur við Ara Magnússon sem síðar bjó í Skálholtskoti. Bærinn var tví- og þríbýli á 19. öld. Árið 1885 var reist timburhús að Mjóstæti 2. Það stemmir þó illa ef líkanið frá 1886 er rétt því þar má sjá torfbæinn Arabæ.
Ljósmynd tekin árið 1877 af miðbænum og Grjótaþorpi í baksýn. Horft inn Austurstræti. Þótt myndin sé ekki skýr má greina bæi í Grjótaþorpi. Birgittubær er fyrst nefndur í manntali árið 1830 og taldist einn af Grjótabæjunum. Hann var kenndur við Birgittu Halldórsdóttur, ekkju Sigmundar Jónssonar trésmiðs sem reisti bæinn. Gísli Jónsson snikkari keypti bæinn seinna, reif torfbæinn 1844 og byggði þar timburhús þar sem er Brattagata 5 og er óbyggð lóð í dag. Kona Gísla hét Rósa Grímsdóttir, mikilúðleg kona, há og þrekin með hvellan málróm. Hún drottnaði yfir Grjótaþorpi og götunni, sem þá var alltaf nefnd Rósustígur og húsið Rósuhús. Myndin sýnir málverk Þorláks R. Halldórssonar frá 1961 af Rósuhúsi. Rósuhús stóð til ársins 1962.
Vinaminni í Grjótaþorpi, byggt árið 1885 þegar torfbærinn Brekkubær sem stóð á sama stað var rifinn. Bærinn var einnig stundum nefndur Brekka. Vinaminni stendur enn í dag að Mjóstræti 3. Húsið á sér mikla sögu og margt merkisfólk hefur búið þar. Vinaminni í dag. Enn reisulegt hús sem setur fallegan svip á umhverfið. Í Vinaminni var fyrsti Kvennaskólinn stofnaður og síðar Verslunarskólinn.