Ánanaust
ÍbúaskráÁnanaust var upphaflega naust frá Vík (Reykjavík), en síðar getið sem hjáleigu frá Hlíðarhúsum í manntali 1703. Þegar kirkjan á Helgafelli fékk Hlíðarhús að gjöf árið 1723 fylgdi hjáleigan Ánanaust með. Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti Hlíðarhús árið 1858. Óljóst er hversu langt aftur má rekja byggð í Ánanaustum. Á 18. og 19. öld var oftast þríbýlt í Ánanaustum og voru bæirnir fimm um tíma. Síðasti torfbærinn stóð fram til 1930, en síðasti bærinn sem tilheyrði Ánanaustum var rifinn árið 1940 vegna gatnaframkvæmda. Gatan Ánanaust sem varðveitir nafn bæjanna fékk nafn sitt árið 1948. Björn Jónsson skipstjóri sem á sér áhugaverða afkomendur bjó og gerði út frá Ánanaustum, en útræði var ávallt mikið þaðan enda skilyrði góð til sjósóknar. Ánanaustabæirnir stóðu þar sem nú er vestasti hluti Mýrargötu. Teikningin vinstra megin er uppdráttur eftir Hoffgard frá 1715 og þar má sjá að þrír bæir tilheyra Ánanaustum. Teikningin hægra megin er frá 1801. |
Teikninginn sýnir staðsetningu torfbæja vestast í vesturbænum. Ánanaust má sjá efst hægra megin. Bærinn Sel sem var kirkjujörð og þekkt frá um 1500 er þarna nefnt Stóra-Sel til aðgreiningar frá Litla-Seli. Kort er frá um 1850. | Myndin er hluti af svonefndum herforingjakortum frá 1902, en Ánanaustabæina má sjá í græna rammanum. Á þessum tíma er strandlengjan enn ósnortin og sést að bæirnir hafa nánast staðið við fjöruborðið. Mýrargata er ekki til á þessum tíma en gatan liggur í dag milli neðsta Ánanaustarbæjarins og þess í miðjunni í græna rammanum. |
Lengst til vinstri sést Ívarssel sem stendur enn í dag við Vesturgötu. Í baksýn má sjá stakkstæði og hluta Ánanaustabæjanna. Einlyfta steinhúsið á miðri mynd nefndist Ánanaust C en það byggðu bræðurnir Kristinn og Björn Jónssynir árið 1902 og bjuggu þar með fjölskyldum sínum og foreldrum. |
Húsið vinsta megin nefndist Ánanaust A, sem Þorvaldur Guðmundsson skipstjóri byggði árið 1903, en það var rifið 1915. Hægra megin, á miðri mynd, sést húsið Ólafsbakki. | Séð frá Ánanaustum út í Örfirisey. Grandinn út í Örfirisey er þarna enn ósnortinn og fór í kaf á flóði. |
Ánanaustabæirnir voru þrír. Síðasti torfbærinn sem hér sést, nánast að hruni kominn, var rifinn um 1930. Steinbæir með sömu nöfnum stóðu til 1940. | Magnús Guðmundsson tómthúsmaður í Ánanaustum og mikill sjósóknari á sinni tíð. Hann var síðasta ábúandinn í torfbænum vinstra megin. Magnús lést árið 1929. |