Grænaborg

Íbúaskrá


Kort Benedikts Gröndal frá árinu 1887 sýnir staðsetningu torfbæjarins Grænuborgar. Skólavörðuholtið er merkt á myndinni sem og Steinkudys þar sem Steinunn Sveinsdóttir, sem lést í tugthúsinu (nú Stjórnarráðið) í ágúst 1805, var dysjuð. Steinunn er ein aðalpersónan í Svartfugli Gunnars Gunnarssonar.
Bærinn Grænaborg var byggður árið 1834 af Gísla Gíslasyni og Sigríði Hinriksdóttur konu hans. Bærinn var sagður tómthúsbýli en lítið undirlendi eða ræktarland fylgdi honum. Í heimildum er þess þó getið að Gísli hafi náð að rækta tún í kringum bæinn sem var að mestu urðarbalar og illræktanlegt. Hinrik Gíslason sonur þeirra hjóna tók við búi af þeim. Hann lést í upphafi 20.aldar en ekkja hans bjó á Grænuborg til ársins 1918, þegar búseta þar lagðist af. Liklegt er að rústir bæjarins hafi verið nánast óhreyfðar þar til Landspítalinn var byggður á árunum 1925-1930 en þá var lóðin tekin í gegn.
Lóðin sem bæjarfógeti leigði Gísla Gíslasyni til atnota og uppbyggingar 10.maí 1834 í 20 ár og skráði í bæjarstjórnarbók 1835 hefur verið um hálfur hektari.

Ekki eru til ljósmyndir af Grænuborg svo vitað sé en fornleifarannsóknir fóru fram á svæðinu árið 2011 í tengslum við væntanlega stækkun Landspítalans. Á myndinni sést staðsetning Grænuborgar á grasflötinni fyrir framan gömlu Landspítalabygginguna.
Ekki eru heimildir um búskap á býlinu en sennilega hefur eitthvað verið af dýrum, þá helst til einkanota eins og þá tíðkaðist. Uppgröfturinn leiddi í ljós mannabústað en engin mannvirki komu í ljós sem eru samtíða Grænuborgarbýlinu sem benda til dýrahalds. Líklegt er að Gísli hafi stundað lausamennsku bæði á sjó og í landi ásamt öðrum tilfallandi verkum sem buðust í Reykjavík, eins og tíðkaðist gjarnan meðal tómthúsmanna.
Til marks um að harða lífsbaráttu hjónanna í Grænuborg birtist í Þjóðólfi 3. febrúar 1877 þakkarkveðja frá þeim hjónum. Þar koma þau þakklæti sínu á framfæri til Geirs Zöega kaup- og útgerðarmanns og herra Jóns Péturssonar yfirdómara og er það svo hljóðandi. Við undirskrifuð örvasa hjón, biðjum hér með herra ritstjóra Þjóðólfs, að votta í blaði sínu okkar hjartanlegustu þakkir herra dbr.manni Geir Zoéga í Rvík, sem nú í 10 ár hefur gefið okkur hjónum, síðan maðurinn minn fatlaðist af sjónleysi, 8 til 10 krónur á ári. Þar næst færum vér sömu þakkir herra yfirdómara Jóni Péturssyni, sem samtals er búinn að gefa okkur 16 kr. Þessar og aðrar velgjörðir góðra manna við okkur, vonum við að hinn Algóði launi. Gísli Gíslason og Sigríður Hinriksdóttir frá Grænuborg við Reykjavík.

Ljósmyndir frá fornleifarannsókninni árið 2011 þar sem undirstöður Grænuborgar komu í ljós. Samkvæmt Páli Líndal, er ritaði bókina Reykjavík Sögustaður við Sund, var Grænaborg að öllum líkindum burstabær, hlaðinn torfi og grjóti með tveimur samhliða burstum, að grunnfleti tvisvar sinnum 6 × 8 metrar. Í uppgröftinum kom þó í ljós að burstirnar voru ekki samhliða heldur önnur burstin aðeins aftar en hin þótt báðir gaflar hafi snúið til suðurs.
Bærinn var reistur að hluta til með efniviði frá eldra mannvirki, sem hefur verið túlkað sem fjárborg. Fjárborgin er talin 100-150 árum eldri en Grænuborgar bærinn út frá jarðlögum. Ekki eru heimildir um fjárborg á þessu svæði, en sé litið á nánasta umhverfi er ekki að undra að útihús, borgir, stekkir eða kvíar, sem tilheyrt hafa eldri bæjum í nágrenninu hafi verið á þessu svæði. Grunnflötur syðri byggingarinnar var um 12 fermetrar en þar undir hefur verið kjallari um 4 fermetrar sem trúlega hefur þjónað sem búr því hann var að öllu leyti niðurgrafinn, og því hentugur til geymslu matvæla. Svo sem fyrir kartöflur, súrmat, fiskmeti og mjólkurvörur, en vissulega getur hann hafa þjónað öðru hlutverki.