Hluti af korti V. Lottin frá 1836. Bærinn merktur 3-67 er Helluland og 3-68 er Merksteinn sem stóð næst Hellulandi, aðeins ofar við Vesturgötu eins og gatan liggur í dag. | Hluti af korti Sveins Sveinssonar frá 1876 af sama bæjarhluta. Helluland er merkt 3-67, Merkisteinn merkt 3-68 og Klettakot 3-69. Klettakot var hjáleiga frá Merkisteini, byggt upp úr 1850 og rifið árið 1887. Á myndinni er Vesturgata, sem hét Hlíðarhúsastígur á þessum tíma, búin að taka á sig núverandi mynd. |
Teikning sem talin er vera af Hellulandi frá árinu 1836. Leiðangur Gaimiard teiknaði þessa mynd eins og fjölmargar aðrar sem reynst hafa ómetanlegar heimildir fyrir seinni tíma grúskara. Með góðum vilja má þekkja Esjuna í bakgrunni. |
Teikning Emanuel Lasker frá 1850 af Hellulandi. Árið 1807 gerðist Jón Snorrason tómthúsmaður í Hellulandi. Nokkrum árum áður hafði Jón verið dæmdur til dauða fyrir hjúskaparbrot og fleiri brot en dómnum breytt í refsivist. Tveimur árum síðar gekk hann í hjónaband með sérstöku leyfi Jörundar hundadagakonungs. Jón lést 1846 og hafði þá eignast 10 börn með 6 konum. Ein dætra hans hét Rómanía og bjó í Hellulandi eftir það. Hún þótti undarleg og margir hræddust hana, enda sögð skaphörð með afbrigðum og óvægin í orðum og athöfnum ef henni sinnaðist við einhvern. Margir trúðu því að Rómanía væri göldrótt, og að bölbænir hennar yrðu að áhrínsorðum.
Helluland var aumasta hreysi og svo rislágt að meðalmaður gat vart staðið uppréttur inni á miðju gólfi, og inngögnudyrnar svo lágar að fullorðið fólk varð að beygja sig mikið til að komast inn um þær. Bærinn var reistur skömmu eftir 1800 og rifinn 1888 þegar Geir Zoega byggði geymsluhús sem síðar varð veitingahúsið Naustið.
Ljósmynd tekin árið 1890 úr fjörunni við Hafnarstræti í átt að vesturbænum. Helluland stóð þar sem hringurinn er, en bærinn var rifinn nokkrum árum áður. Húsið sem sést innan hringsins er Merkisteinn, timburhús sem reist var árið 1880 þegar torfbær með sama nafni var rifinn. | Málverk Jóns Helgasonar af Hellulandi. Torfbæirnir í Reykjavík eða kotin eins og þau voru oft nefnd, voru afleitir mannabústaðir og var Helluland talið með þeim allra verstu. Enda var bærinn oft nefndur Höll eða Skíthöll til háðungar. |
Bæjarstæði Hellulands, þar sem í dag er Vesturgata 6-8. Stóð nokkurn vegin þar sem veitingastaðurinn Naustið var, kannski viðeigandi. | Bæjarstæði Merkisteins var þar sem í dag er Vesturgata 12. Torfbærinn Merkisteinn var reistur í landi Hlíðarhúsa árið 1835 og rifinn um 1880 þegar timburhús með sama nafni var byggt á sama stað. |