Melshús
ÍbúaskráTeikning af Reykjavík byggð á kortinu hægra megin frá 1787 og öðrum eldri gögnum. Rauða örin bendir á Melshús. Melshús var ein af hjáleigum Víkur og lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur 1806. Árið 1703 var aðeins einn ábúandi í Melshúsum en árið 1786 bjó þar einn helsti fyrirmaður hreppsins, monsjer Jón Sveinsson hreppstjóri Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps ásamt maddömu sinni Sigríði Guðmundsdóttur sem bjó þar áður með fyrri manni sínum, Jóni Magnússyni snikkara. Til stóð að aðsetur biskups og latínuskóli yrðu reist í landi Melshúsa þegar biskupsstóllinn fluttist frá Skálholti. Biskupsstóllinn reis ekki vegna fjárskorts en skólinn var reistur í landi Hólakots, næsta bæ við Melshús, árið 1785. | Þetta er hluti úr korti frá 1787 sem Rasmus Lievog konunglegur stjörnuskoðari útbjó nokkum mánuðum eftir stofnun kaupstaðarins. Melshús er merkt á kortið sem og Hólakot. Skólinn er Hólavallaskóli. Tjörnin sést hægra megin. Stígurinn frá miðbænum lá út í Skildinganes og varð síðar Suðurgata. Melkot er neðst á myndinni austan stígsins. |
Teikning úr leiðangri Gaimards frá 1836. Horft er til austurs frá Hólavöllum. Melshús eru hægra megin á myndinni og Skólabær vinstra megin. Handan tjarnarinnar má sjá Stöðlakot og Skálholtskot auk kotbýla í Þingholtunum. |
Melshúsabæirnir eru hægra megin en líkhúsið í kirkjugarðinum við Suðurgötu vinstra megin. Myndin er trúlega tekin um 1890. Melshúsbæirnir stóðu í þeim hluta kirkjugarðsins sem byrjað var að nýta árið 1903. Melshúsabæirnir voru þrír á þessum tíma, en flestir urðu þeir fimm. Tveir voru sambyggðir og vissi framhlið þeirra í austur eins og myndin sýnir. Þeir stóðu að stærstum hluta þar sem nú eru skikarnir V2 og V3 eins og kirkjugarðurinn er merktur í dag. Þriðji bærinn stóð ögn vestar og snéri framhlið til vesturs. Árni prófastur Þórarinsson bjó á námsárum sínum hjá móður sinni í Melshúsum og getur um að þar hafi verið timburhús og hjallur við hlið bæjarins (lengst til hægri á myndinni). Þriðji bærinn stóð á mörkum skikanna V1 og V2.
Sama mynd og fyrir ofan, en þarna má sjá frá hægri Skólabæ, Melshús, líkhúsið og síðan Melkot. | Ferðamenn við Tjörnina. Í baksýn sjást frá vinstri Melshús, Skólabær og Hólakot. Dökka timburhúsið fyrir neðan Hólakot er Brunnhús. |
Melshúsbæirnir. Vinsta megin vestari bærinn og hægra megin austari bærinn eins og þeir voru nefndir til aðgreiningar. Óvíst hvenær myndin er tekin, en gera má ráð fyrir að það sé nálægt 1900, en þeir voru báðir rifnir 1905 þegar kirkjugarðurinn var stækkaður til norðurs. |
Málverk Jóns Helgasonar biskups af austari Melshúsabænum sem þótti með aumlegustu kotum bæjarins. Gagnlegar upplýsingar um Melshús má finna á www.melshus.is | Austasti Melshúsabærinn stóð lengst Melshúsabæjanna og var rifinn árið 1905 þegar kirkjugarðurinn var stækkaður til norðurs. Ljósmyndina tók Árni Thorsteinsson tónskáld og ljósmyndari á árunum 1900-1905. Sjá má að bærinn er að hruni kominn. |
Konan á myndinni er Gunna grallari síðasti ábúandi í Melshúsabænum austari. Gunna var vatnsberi og þekkt stærð við Prentsmiðjupóstinn og bar vatn fyrir Hótel Ísland og Krúger lyfsala. Hún var dugleg kona og vel greind, en þótti gott í staupinu. Hún kunni alla passíusálmana utanbókar og grallarann, þaðan kom viðurnefnið. | Grunnmynd af austari Melshúsabænum sem Hjörleifur Stefánsson arkitekt teiknaði út frá eldri virðingarlýsingum. Hjörleifur hefur manna mest kynnt sér innviði torfbæja í Reykjavík og víðar. |
Melshús, sama ljósmynd og ofar en stækkuð til að betur megi greina bæina og hverjir þeirra eru enn torfbæir. | Austasti Melshúsabærinn trúlega nálægt 1890 eins og myndin vinstra megin. Veglegur grjótgarður er í kringum bæinn. |
Hluti úr korti Sveins Sveinssonar frá 1886. Sjá má torfbæina Melkot, Melshús, Skólabæ og Hólakot. Kirkjugarðurinn er merktur og einnig stækkun garðsins 1905 þar sem Melshús þurftu að víkja. |
Sama kort og að ofan nema það hefur verið lagt yfir núverandi götukort. Með góðri nákvæmni má sjá hvar bæirnir stóðu. |
Útsýni frá Melshúsum yfir Kvosina, tekin árið 1888. Tjörnin nær nánast að Alþingishúsinu. |
Bjarni Matthíasson (1845-1936) dómkirkjuhringjari taldist meðal þeirra sem settu svip á bæinn á sínum tíma. Bjarni flutti 10 ára til Reykjavík frá Hafnarfirði. Hann var skipaður dómkirkjuhringjari árið 1891 og gengdi því embætti til dauðadags. Bjarni bjó í Melshúsum, fyrst í einum torfbæanna en þegar þeir voru rifnir samhliða stækkun kirkjugarðsins flutti hann í nýtt hús við Garðastræti 49 sem nefnt var Melshús en kallað Hringjarabær í daglegu tali. Hringjarabærinn og fólkið þar kemur við sögu í Brekkukotsannál Halldórs Laxness. Talið er víst að Ingunn Grímsdóttir kona Bjarna sé fyrirmynd Kristínar gömlu í Hringjarabænum og sonur Ingunnar sem fór út í heim er kveikjan að Garðari Hólm. Sagt er að Bjarni hafi látið grafa sig á nákvæmlega sama stað og rúmstæðið hans stóð í gamla torfbænum. Í það minnsta er leiði Bjarna sérkennilega staðsett á miðjum stíg í kirkjugarðinum. Ef rétt er, þá er komin býsna góð staðsetning á vestari torfbænum. Rétt er þó að hafa í huga að Bjarni er jarðaður 30 árum eftir að torfbærinn er rifinn. Það rýrir heldur gildi sögunnar að leiði Bjarna er nokkuð vestar en Melshúsa bæirnir virðast hafa staðið samkvæmt staðsetningarmyndum hér ofar. |