Sölvhóll

Íbúaskrá
Sölvhóll, teikning Winstrups frá 1846. Þetta er trúlega elsta teikning sem til er af bænum. Sölvhóll var hjáleiga frá Arnarhóli og byggðist fyrst um 1780. Bærinn var endurbyggður 1834 og var þá talinn með bestu torfbæjum í Reykjavík. Teikningin staðfestir að bærinn var reisulegur á þessum tíma, a.m.k. í samanburði við aðra torfbæi í bæjarlandinu. Sölvhóll, ljósmynd frá 1883. Nafnið Sölvhóll vísar að öllum líkindum til gamalla búskaparhátta. Mikið var um sölvatekju í Örfirisey og á Víkurfjörum. Líklegt má telja að Sölvhóllinn hafi verið notaður til að þurrka söl. Eldri orðmynd gæti hafa verið Sölvahóll.
Sölvhóll sést neðst hægra megin á myndinni. Húsið nálægt miðju er Höfn en þar reis síðar Fiskifélagshúsið Höfn sem nú er hótel á gatnamótum Ingólfsstrætis og Skúlagötu. Fyrir miðri mynd er franska korvettan La Mance sem var í kurteisisheimsókn. Skotið er af fallbyssum þess til heiðurs Magnúsi Stephensen landshöfðingja sem kom um borð í heimsókn. Sölvhóll frá Arnarhóli á miðri mynd, málverk eftir Jón Helgason. Í baksýn hægra megin sjást torfbæirnir Klöpp, Vindheimar og Nikulásarkot.
Ljósmynd af Sölvhóli frá 1915. Konan á myndinni er Helga Jónsdóttir vinnukona á bænum að sækja vatn. Bærinn var rifinn árið 1930, hugsanlega í tengslum við komu Danakonungs og Alþingishátíðina sama ár. Ekki talið við hæfi að hinir tignu gestir þyrftu að horfa upp á lúinn torfbæ í bæjarlandinu. Sölvhóll upp úr 1920, stuttu áður en bærinn var rifinn. Í baksýn sést Sambandshúsið (nú hluti af menntamálaráðuneytinu) sem byggt var árið 1919 í kartöflugörðum Sölvhóls, Á þessum tíma var verulega farið að þrengja að Sölvhóli. Nokkrum árum síðar fluttu síðustu ábúendurnir úr húsinu.
Sölvhóll að vetrarlagi árið 1920. Ljósmyndina tók Magnús Ólafsson. Málverk af Sölvhóli málað 1953 eftir eldri myndum enda var bærinn rifinn árið 1930. Sölvhólsvegur í Reykjavík dregur nafn sitt af bænum.


Þrívíddarlíkan af Sölvhóli eins og bærinn leit út í lok 19. aldar, grundvallað á teikningum sem Hjörleifur Stefánsson arkitekt útbjó út frá úttektum sem gerðar voru á bænum og ljósmyndum sem hafa varðveist. Páll Heimir Pálsson gerði líkanið að ósk Hjörleifs sem manna mest hefur rannsakað byggingarlag torfbæja í Reykjavík.
Smellið hér til að opna þvívíddarlíkanið sem snúa má á alla kanta. Sjón er sögu ríkari!