Bæir í suður Þingholtum


Kort Björns Gunnlaugssonar af Reykjavík austan lækjar um 1850. Torfbæir eru merktir sem kassi með punkti í miðju. Neðarlega vinstra megin má sjá hjáleigur gamla Reykjavíkurbæjarins, Skálholtskot og Stöðlakot. Á miðri mynd eru bæir í Þingholtunum, ofar þeir sem voru við Þingholtsstræti og Ingólfsstræti næst Bankastræti, en neðar þeir sem töldust tilheyra suður Þingholtum. Þar fyrir ofan má sjá bæi í Skuggahverfi.
Ákveðnir fyrirvarar eru gerðir við áreiðanleika og nákvæmni þessa korts. Bæi vantar sem heimildir eru fyrir, t.d. bæi við Ingólfsstræti. Arnarhóll er merktur inn á teikninguna þótt bærinn hafi verið rifinn árið 1828 og fleira mætti telja til.


Kort Sveins Sveinssonar frá 1876 af suður Þingholtum. Bæir sem tilheyra þessu svæði hafa verið merktir inn.
    A: Bergstaðir (Bergstaðastræti 6)
    B: Miðholt (Hallveigarstígur 10)
    C: Brenna (Bergstaðastræti 12)
    D: Litla-Grund (Bergstaðastræti 16)
    E: Efstibær (Spítalastígur 4)
    F: Berg (Grundarstígur 2)
    G: Sigurðarbær (Ingólfsstræti 23)
    H: Pálsbær (Ingólfsstræti 21)
    I: Efraholt (Týsgata 1)
    J: Litlaholt (Skólavörðustígur 17-19)

Eins og títt var um torfbæi í Reykjavík báru margir þeirra önnur nöfn á einhverjum tíma. Bergstaðir áður Stóru-Bergstaðir, en Litlu-Bergstaðir stóðu þar sem nú er Skólavörðustígur 4. Miðholt nefndist áður Guðnabær eftir þeim sem upphaflega reisti bæinn. Efstibær var áður nefndur Hinriksbær eftir eigandanum. Berg var einnig nefnt Zakaríasarbær. Sigurðarbær var nefnt Norður-Berg og Pálsbær var upphaflega nefndur Holt. Efst í Þingholtunum voru Efraholt sem síðar var jafnan nefnt Holt og Litlaholt sem einnig var nefnt Þorláksbær eftir Þorláki Péturssyni sem reisti bæinn. Allir þessir bæir risu um eða fyrir 1850 nema Litla-Grund sem reistur var árið 1856.

Teikning Aage Olsen Aanum, byggt á eldri kortum, sýnir austurhluta Reykjavíkur um 1880. Torfbæir sem stóðu þar sem nú er suðurhluti Þingholta eru merktir með bókstöfum. Stöðlakot (A), Skálholtskot (B), Pálsbær (C), Sigurðarbær (D), Berg (E), Hinriksbær (F), Brenna (G), Bergstaðir (H), Halldórsbær (I), Suður-Berg (J), Grund (X), Miðgrund (Y), Litla-Grund (Z), Miðholt (Þ), Efraholt (Æ) og Litlaholt (Ö)
Málverk Jóns Helgasonar biskups af dómkirkjunni og nágrenni um 1850. Horft er eftir vegslóða sem er upphafið að Kirkjustræti þótt gatan liggi í dag örlítið norðar. Í bakgrunni má sjá fjölmarga torfbæi í Þingholtunum. Með samanburði við myndir hér ofar má með sæmilegri nákvæmni nafngreina bæina. Hafa ber þó í huga að Jón málar myndina um hálfri öld síðar en byggir á eldri kortum og heimildum.
Málverk Jóns Helgasonar biskups af kotbýli í suður Þingholtum. Óvíst er hvaða bær þetta er, en flest þóttu býlin aum til búsetu og undantekningalítið fátækt alþýðufólk sem þar bjó. Litla timburhúsið fremst á myndinni nefndist Efstibær. Á þessari lóð stóð áður torfbær með saman nafni sem byggður var 1835. Var síðar nefndur Hinriksbær eftir þáverandi eiganda sínum. Torfbærinn var rifinn árið 1883 þegar húsið á myndinni var byggt. Það var flutt í Árbæjarsafn árið 1967. Ljósmyndin er tekin 1950.
Horft inn Bergstaðastræti að Skólavörðustíg frá þeim stað sem torfbærinn Bergstaðir stóð áður. Sjá má Hegningarhúsið og reisulega grjótgarða sem vekja athygli. Upphaf götunnar nær til um 1860, en götuheitið kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1892. Torfbærinn Bergstaðir, einnig nefndur Stóru-Bergstaðir, var reistur 1834 og rifinn 1873 og þá reistur steinbær i staðinn að Bergstaðastræti 6. Nú er bílastæðahús á þessum stað. Torfbærinn Brenna var reistur árið 1836 af Ingimundi Þorbjörnssyni þar sem í dag er Bergstaðastræti 12. Í stað torfbæjarins byggðu steinsmiðirnir Jónas og Magnús Guðbrandssynir steinbæ árið 1881 sem stendur enn í dag á baklóð hússins að Bergstaðastæti 12a. Steinbærinn var friðaður árið 2011.
Horft frá Skólavörðuholti niður Skólavörðustíg, Þingholtin á vinstri hönd. Myndin er væntanlega tekin uppúr 1880 því sjá má að Hegningarhúsið er risið en myllan í Bankastræti er enn uppistandandi. Með því að rýna í myndina má sjá bæinn Efra-Holt efst vinsta megin við Skólavörðustíg og Litlaholt hægra megin ber í Hegningarhúsið Torfbærinn Efra-Holt var reistur var af Jóni Sigfússyni um 1850 þar sem í dag er Týsgata 3. Um 1868 voru í stað torfbæjarins reist þar bæjarhús úr timbri og enn síðar steinhús í stað þeirra og nafnið Holt festist við bæinn. Myndin sýnir Holt um 1890.
Bergstaðir - Bergstaðastræti 6 Miðholt - Hallveigarstígur 10 Brenna - Bergstaðastræti 12
Litla-Grund - Bergstaðastræti 16 Efstibær - Spítalastígur 4 Pálsbær - Ingólfsstræti 21
Sigurðarbær - Ingólfsstræti 21 Berg - Grundarstígur 2 Suðurberg - Grundarstígur 11
Halldórsbær - Þingholtsstræti 27 Efraholt - Týsgata 1 Litlaholt - Skólavörðustígur 17